Tekjur Reykjavíkur aukast um 1,2 milljarða

Tekjur Reykjavíkurborgar, og þar með útgjöld einstaklinga og fyrirtækja, vegna lóðaleigu af íbúðar- og atvinnuhúsnæði og fasteignasköttum koma til með að aukast um 1,2 milljarða á næsta ári, með óbreyttum skatthlutföllum, að sögn Sigurðar Snævarr borgarhagfræðings.

Í gær birti yfirfasteignamatsnefnd ákvörðun sína um breytingu á fasteignamati. Almenn hækkun á landsvísu er 12%, en fer eftir svæðum allt frá 6% upp í 20%. Fyrrnefndar tekjur borgarinnar eru um 9,4 milljarðar á árinu 2007 að sögn Sigurðar og miðaði hann við 12% hækkun í Reykjavík.

Skattar lækka í Garðabæ, ekki í Reykjavík

Í samtali við Morgunblaðið sagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri að hækkunin færi fram úr því sem borgarstjórn hefði miðað við við gerð fjárhagsáætlunar, en almennar skattalækkanir væru ekki á dagskrá. Frekar kæmi til greina að létta álögum af einstökum hópum fólks.

„Við vorum búin að áætla hækkunina og búin að setja til hliðar 270 milljónir í sérstakar aðgerðir í húsnæðismálum. Við munum fara yfir hverjir standa höllum fæti á húsnæðismarkaði og reyna að tryggja að þeir fjármunir nýtist þeim best sem þurfa mest á þeim að halda.“

Aðspurður hvort mismunurinn á 1,2 milljarða tekjuauka og 270 milljónum í sértækar aðgerðir væri þá í raun kominn inn í fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir næsta ár kvaðst Dagur ekki hafa séð nákvæmar tölur um áhrif hækkunarinnar á fjárhaginn en borgarstjórn myndi fara yfir málið sem fyrst á nýju ári.

Að sögn Gunnars Einarssonar, bæjarstjóra í Garðabæ, munu fasteignaskattar þar lækka á næsta ári svo íbúar fái örlitla raunlækkun á sínum greiðslum. Ekki fengust upplýsingar um tekjuauka Kópavogs og Hafnarfjarðar vegna fasteignamatsins.

Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi, sagði sérstakar skattalækkanir ekki á dagskrá vegna þessa, en sagði bæinn engu að síður hafa minnkað álögur að undanförnu. Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði, sagði hækkunina yfir forsendum fjárhagsáætlunar næsta árs. Ákvörðun um hugsanlega lækkun gjalda sagði hann tekna eftir áramót þegar bæjarstjórn og bæjarráð taka aftur til starfa. „Það er alveg ljóst að við þurfum að skoða þau mál,“ sagði hann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert