Allir eigi samastað um jólin

Jólin eiga að vera hátíð gleði og samveru. Þó að flestir séu svo heppnir að geta notið hátíðanna í faðmi fjölskyldu og vina eru ýmsir sem ekki eru jafn heppnir. Fjöldi fólks á hvergi höfði sínu að halla og á jólum er engin breyting þar á. Þeir sem að eiga undir högg að sækja í samfélaginu eiga þó hauka í horni víða í samfélaginu.

Hjálpræðisherinn hefur um árabil boðið þeim sem eru vegalausir um hátíðirnar í jólaveislu á aðfangadag. Hin síðari ár hafa veisluhöldin verið í samstarfi með Vernd, fangahjálp. Anne Marie Reinholdtsen, yfirforingi í hjálpræðishernum, segir að vel á annað hundrað manns muni koma í jólamatinn.

„Þegar mest hefur verið var fjöldinn um 200 manns. Þetta er alls konar fólk sem kemur, þó að margir eigi vissulega undir högg að sækja í samfélaginu. Fyrir nokkrum árum snæddu forsetahjónin meira að segja með okkur." Anne segir að allir séu hjartanlega velkomnir til þeirra á jólunum. Mikill fjöldi sjálfboðaliða komi hvert ár og veiti liðsinni sitt. „Suma sjáum við ár eftir ár. Það er ótrúlegt happ hversu margt gott fólk leggur okkur lið."

Hjá Samhjálp er sömuleiðis boðið upp á jólamat og gott betur. „Við bjóðum skjólstæðingum okkar upp á klippingu og fötum þá upp hérna á kaffistofunni. Það má enginn fara í jólaköttinn. Á aðfangadag er maturinn klukkan tólf og eins á jóladag. Í fyrra komu ríflega sextíu manns og ég býst við svipuðum fjölda í ár. Við verðum með opið yfir alla hátíðina og hér er bara mikil jólastemning," segir Svala Sigtryggsdóttir, stuðningsfulltrúi hjá Samhjálp.

Geðhjálp heldur jólin hátíðleg með skjólstæðingum sínum á Túngötu 7. Ingibjörg Gunnlaugsdóttir, allsherjar ráðskona, segir að hún búist við því að vel á annan tug manns komi í matinn. „Hér eru allir velkomnir."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka