Yfirborð jólabókaflóðsins fer nú að ná hæstu stöðu. Bóksala hefur gengið vel og verið mikil, en að sögn Bryndísar Loftsdóttur, vörustjóra íslenskra bóka hjá Pennanum, hefur skáldsagan oft verið sterkari en nú. Hins vegar seljast bækur um almennan fróðleik og fræði sem aldrei fyrr, og því ljóst að landinn er fróðleiksþyrstur þessi jólin.
Sölu barnabóka segir Bryndís hafa verið ágæta, ekki síst vegna lokabókarinnar um Harry Potter. Hún segir bóksala hafa fundið minna fyrir tilkomu stórra leikfangabúða í Garðabæ en búist var við, það hafi að einhverju leyti verið tilefnislausar áhyggjur. Börn fá því væntanlega bæði leikföng og bækur í hörðum pökkum þetta árið.