„Ég veit ekkert hvar sonur minn er núna, en ég veit að hann er í mjög slæmu ástandi og ég óttast að hann geri eitthvað hræðilegt af sér."
Þetta segir móðir geðsjúklings sem tvisvar hefur framið ofbeldisverk í geðsturlunarástandi. Í fyrra skiptið reif hana konu út úr bíl á Hringbraut og ók á brott. Þá réðst hann á gest á hóteli Hjálpræðishersins og gekk í skrokk á honum. Í gær rændi hann veski af vegfaranda, sem hefur kært málið til lögreglu.
„Hann er svo veikur. Hann heldur að allir séu að njósna um sig og ætli að ráða hann af dögum. Hver sem er getur orðið fyrir barðinu á honum þegar hann er í þessu sturlunarástandi," segir móðir hans. Maðurinn hefur ekki hlotið dóm fyrir árásirnar þar sem hann telst ósakhæfur, en hann greindist með geðklofa árið 2005. Hann byrjaði ungur að árum í fíkniefnaneyslu en hann er 26 ára.
Konan hefur um árabil reynt að finna syni sínum stað innan heilbrigðiskerfisins og vill að honum verði tryggð framtíðarlausn. "Ég hef þurft að berjast fyrir því að koma honum inn á geðdeildina hjá Landspítalanum, en þar hafa honum verið gefin lyf og svo sleppt. Hann hefur verið sendur á meðferðarheimili en þar er starfið svo ómarkvisst að eina verslunarmannahelgina var honum hleypt í helgarfrí. Hvernig er hægt að hleypa geðsjúklingi sem er fíkill í helgarfrí?" spyr móðir mannsins.