„Við erum ekki við samningaborðið að velta fyrir okkur einstaka liðum vísitölu neysluverðs,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands, spurður hvort töluverðar matvælahækkanir, sem fyrirséð er að kunni að eiga sér stað á næsta ári, verði skoðaðar sérstaklega í komandi kjarasamningum.
„Við höfum bent á að mikil óvissa sé framundan í efnahagsmálum almennt. Vextir eru mjög háir, krónan er mjög sveiflukennd og hefur veikst að undanförnu,“ segir hann. Við bætast svo hækkanir á heimsmarkaðsverði, t.d. á korni, og fasteignaverð er hátt.
„Þetta þýðir einfaldlega að á næsta ári verður mikil óvissa um framvindu verðlags,“ segir Gylfi sem telur þróunina áhyggjuefni. Hann segir að ASÍ leggi til við stjórnvöld að næstu kjarasamningar verði gerðir til tveggja ára. „Við teljum okkur þurfa að hafa endurskoðunarákvæði eftir ár ef allt fer á versta veg, ef fyrirtækin í landinu velta þessu öllu [hækkunum] út í verðlagið og ekkert kemur á móti til að slá á,“ segir Gylfi.