Fyrstu samningarnir við sjálfstætt starfandi sálfræðinga hafa verið gerðir. Sálfræðingar hafa lengi óskað eftir því að komast á samning við ríkið um greiðsluþátttöku Tryggingastofnunar fyrir meðferð sína.
Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra segist nálgast samninga í heilbrigðisþjónustu með því að skjólstæðingar fái þá þjónustu sem í boði er, hvað sem stéttin heitir.
Ráðherrann segir að samningurinn við sálfræðinga sé í samræmi við áherslur ríkisstjórnarinnar um að stórefla þjónustu við börn og ungmenni og gefa þeim kost á sem fjölbreyttastri þjónustu. Ekki skipti máli hver veiti þjónustuna, svo framarlega sem hún uppfyllir fagleg skilyrði og er nauðsynleg. Ekkert sé þar útilokað, til dæmis að fleiri stéttir geti samið við ríkið.
Kostnaðurinn vegna sálfræðinga á næsta ári verður 35 milljónir króna, en fjöldi sálfræðinga er óbundinn. Hægt verður að vísa til sálfræðinga frá BUGL og Miðstöð heilsuverndar barna.