Útsvar á Seltjarnarnesi lækkar úr 12,35% í 12,10% fyrsta janúar næstkomandi samkvæmt ákvörðun bæjarstjórnar, en fjárhagsáætlun ársins 2008 var afgreidd á fundi hennar í dag. Þá lækkar fasteignaskattur á íbúðarhúsnæði úr 0,24% í 0,2%, vatnsskattur lækkar úr 0,115% í 0,10% og fráveitugjald verður 0,097% af fasteignamati.
Að sögn Jónmundar Guðmarssonar, bæjarstjóra á Seltjarnarnesi, verða allir gjaldastuðlar fasteignagjalda auk útsvars þeir lægstu á höfuðborgarsvæðinu með þessum lækkunum. Segir hann þetta endurspegla sterka fjárhagslega stöðu bæjarins og vilja bæjaryfirvalda til að láta skattgreiðendur njóta hennar með lækkun gjalda.
Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri í Mosfellsbæ, segir 20% hækkun á matsverði atvinnuhúsnæðis og lóða og 12% hækkun á matsverði íbúðarhúsnæðis og lóða í Mosfellsbæ töluvert umfram viðmið fjárhagsáætlunar næsta árs. Segir hann að í fjárhagsáætlun hafi verið gert ráð fyrir 8-10% hækkun fasteignamats. Bærinn hyggist halda fasteignasköttum, útsvari og holræsagjaldi óbreyttum, með þeim fyrirvara að hann hefði ekki enn kynnt sér áhrif hækkunarinnar.
Mosfellsbær er að sögn Haraldar með mjög lágan fasteignaskatt fyrir, eða 1%, sem sé til að mynda mun lægra en í Reykjavík þar sem sama hlutfall er 1,65%. Tekjur Mosfellsbæjar af fasteignasköttum og lóðaleigu, á árinu sem er að líða, var samkvæmt fjárhagsáætlun 2007 291 milljón króna og er tekjuauki bæjarins af hækkuninni skv. því á fjórða tug milljóna.