Fangelsin í landinu hafa verið því sem næst fullskipuð það sem af er árinu og hefur nýtingarhlutfall afplánunarplássa á Litla-Hrauni og í Kópavogsfangelsinu verið frá 95 til 100 prósent, 93 prósent í Hegningarhúsinu á Skólavörðustíg, 99 prósent í fangelsinu Kvíabryggju, til 3. okt. sl., og 86 prósent í fangelsinu á Akureyri, þar til 9. maí 2007 er hafist var handa við endurbyggingu þess.
Þetta kemur fram á vef Fangelsismálastofnunar, fangelsi.is, en þar segir að stofnunin hafi „lagt áherslu á að boða menn til afplánunar eins og fljótt og unnt er“ og að leitast sé við að „nýta afplánunarpláss vel til að draga úr bið eftir fangelsisplássi“.
Kemur þar jafnframt fram að þegar nýtingin sé svona mikil verði „skipulag starfseminnar mun þyngra“ og erfiðara að mæta óvæntum uppákomum. Þá sé erfiðara að sinna viðhaldi þegar fangelsin eru nær því full nýtt, auk þess sem tölurnar minni á mikilvægi þess að halda áfram uppbygginga fangelsa.