Farbannið virkar greinilega ekki

„Aðstæður hafa breyst mjög mikið á allra síðustu árum og það gerir það að verkum að farbannið dugar greinilega ekki með sama hætti og áður,“ segir Birgir Ármannsson, formaður allsherjarnefndar Alþingis. Nefndin hefur nú fengið til umræðu frumvarp til laga um meðferð opinberra mála, sem dómsmálaráðherra lagði fram í haust og fyrsta umræða hefur farið fram um í þinginu.

Birgir segir nefndina ekki vera farna að fjalla efnislega um frumvarpið enn sem komið er, en nefndarmenn hafi hins vegar heyrt sjónarmið frá lögreglumönnum á undanförnum mánuðum, sem gefi tilefni til að skoða ákvæðin um farbanns- og gæsluvarðhaldsúrskurði ítarlega.

Birgir segist í aðalatriðum taka undir sjónarmið sem Jóhann R. Benediktsson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, hefur viðrað, m.a. þess efnis að úrræði lögreglu til að framfylgja farbannsúrskurðum séu til lítils þegar för fólks er frjáls innan Schengen svæðisins. „Það verður að tryggja að þau úrræði sem eru í lögunum séu þannig að það sé hægt að beita þeim og að þau virki.“

En þýðir þetta þá að ný tækni, eins og GPS-staðsetningarbúnaður og ökklabönd svo eitthvað sé nefnt, verði hagnýtt til þess að virkja eftirlit með sakamönnum sem sæta farbanni?

„Nú er of snemmt að fjalla um einstök svona tilvik, en við getum sagt að meginmarkmiðið með löggjöfinni er að tryggja réttaröryggi í landinu, bæði öryggi borgaranna og persónuréttindi. Eins og lögin eru í dag er gæsluvarðhald meira íþyngjandi úrræði en farbann vægara, þess vegna hafa dómstólar tilhneigingu til að beita vægara úrræðinu. Það er sjálfsagt að skoða nýja tækni og nýja möguleika með það fyrir augum að tryggja að sakaðir menn eigi ekki kost á því að komast úr landi og undan refsingu og afplánun. Ég vil ekki útiloka neitt í því sambandi, en vísa til þess að málið er í frumvinnslu hjá allsherjarnefnd,“ segir Birgir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert