Það fer hver að verða síðastur að kaupa jólatré fyrir þessi jól, enda rétt rúmur sólarhringur þar til hátíð gengur í garð. Samkvæmt lauslegri könnun mbl.is er farið að bera á skorti á trjám víða, en enn er a.m.k. nóg til af trjám hjá björgunarsveitarmönnum í Hafnarfirði, Skógræktarfélagi Reykjavíkur og í Blómavali.
Flugbjörgunarsveitin í Reykjavík er að selja sín síðustu tré og verður jólatréssölunni lokað innan skamms. Þá mun hjálparsveit skáta í Garðabæ hafa selt sín síðustu tré í gær.
Annars staðar er viðbúið að ekki séu til allar stærðir og gerðir sem vandlátir jólatrjáakaupendur vilja, einkum virðist sem lítið sé eftir af smærri trjám.