Árni Friðrik Einarsson Scheving tónlistarmaður lést í Reykjavík 22. desember sl.
Árni fæddist í Reykjavík 8. júní 1938. Foreldrar hans voru Einar Árnason Scheving húsasmíðameistari og Þóranna Friðriksdóttir, húsfreyja. Systkini Árna eru Örn, Birgir og Sigurlín Scheving. Börn Árna eru Ragnar, Bryndís, Guðni Þór og Einar Valur auk fóstursonarins Arnaldar Hauks.
Árni ólst upp í Reykjavík og hóf ungur að starfa sem hljómlistarmaður. Hann starfaði með öllum helstu hljómsveitum og tónlistarmönnum þessa lands á öllum sviðum tónlistar. Árni var einn virtasti djassleikari þjóðarinnar og var formaður djassdeildar FÍH, auk þess sem hann var í forsvari fyrir Djasshátíð Reykjavíkur til fjölda ára.
Árni var eftirsóttur hljóðfæraleikari, útsetjari og hljómsveitarstjóri og spilaði inn á ótal hljómplötur á hin ýmsu hljóðfæri, svo sem víbrafón, bassa, rafbassa, óbó, saxófón, harmonikku og píanó. Hann sinnti lengi trúnaðarstörfum fyrir Félag íslenskra hljómlistarmanna og var gerður að heiðursfélaga FÍH á aðalfundi félagsins í maí sl. Þar var honum þakkað ómetanlegt starf í þágu íslensks tónlistarlífs.
Árni rak einnig heildverslun sem bar nafn hans og hafði hann m.a. umboð fyrir Zippó vörur. Heildsölu sína rak hann til dánardags. Eftirlifandi eiginkona Árna er Sigríður Friðjónsdóttir.
Útförin verður gerð frá Hallgrímskirkju föstudaginn 4. janúar og hefst athöfnin kl. 13:00.