Jólin voru hringd inn klukkan 18 í kvöld í kirkjum landsins og sóttu margir aftansöng en víða eru einnig miðnæturmessur síðar í kvöld. Veður er þokkalegt um allt land, víðast hvar hægur vindur og lítilsháttar snjókoma eða slydda.
Sr. Sigurður Ægisson, sóknarprestur á Siglufirði, segir í jólahugvekju, fyrir mbl.is, að nú sé hún komin, blessuð jólahátíðin, sem rúmlega tveir milljarðar jarðarbúa – þriðjungur alls mannkynsins – hafi óþreyjufullur verið að bíða eftir. Og boðskapur jólahátíðarinnar sé enn sá sami og áður, að frelsari sé þessum heimi gefinn, í mynd lítils drengs, sem þó var í upphafi lagður í jötu í gripahúsi, vegna þess að ekki var pláss fyrir hann annars staðar.
„En svo gerðust merkilegir hlutir um þrjátíu árum síðar. Og engum fölva hefur eftir það slegið á nafn Jesú Krists, þótt 2000 ár séu liðin frá því að hann gekk um fjöll og sléttur ættlands síns við Miðjarðarhaf. Þvert á móti. Hann er nú dáður og elskaður af fleirum á þessari jólahátíð en nokkru sinni áður. Og enn á hann sama kraftinn og geislandi ljósmagnið nú og þá, er hann gekk hér um storð og kenndi.
Það er hollt og gott að muna að jólin eru ekki einvörðungu hátíð ljóss og friðar, heldur sá tími sem börnin vilja að mamma og pabbi, amma og afi staldri við, hægi ferðina, gefi þeim meiri tíma og gaum en ella. Það hefur lítið að segja að hengja upp marglitt skraut utan- og innandyra og hlýða á eða raula „Heims um ból" ef við sjáum ekki það sem er í augum barna okkar. Þau finna og skynja hvort þau eru elskuð og virt. Og lengi býr að fyrstu gerð. Þetta eru okkar dýrmætustu perlur. Gleymum því aldrei.
Íslenskur kollegi gistihússeigandans í jólasögunni tók öðruvísi á málum en hinn forðum. Hann var þá átta ára gamall og var ásamt bekkjarsystkinum sínum í heimsókn í kirkju einni í desembermánuði, þar sem einmitt átti að flytja hið sígilda verk um Maríu og Jósef. Og þegar kemur að hápunktinum í þessu mikla drama, að þau hjónaleysin spyrja hvort þau geti fengið inni á hótelinu, þá segir litli snáðinn, mjög svo óvænt og klökkum rómi og með tárin í augunum: „Jú, ég held að það sé eitt herbergi laust."
Þarna hafði andi aðventunnar og jólanna yfirbugað þessa litlu sál. Og það gerir hann líka við okkur sem eldri erum, við finnum það öll, ekki síst þegar nær dregur, að ég tali ekki um á sjálfu aðfangadagskvöldinu, þegar allt verður heilagt. Þá taka væntumþykjan og kærleikurinn af okkur völdin og setjast að í hjörtunum.
Þannig hefur þetta verið í rúm þúsund ár meðal Íslendinga, og hefur líka gegnsýrt alla söguna og menninguna, allan jarðveginn og blóm hans og grös, og mun halda áfram að gera það, svo lengi sem Jesús Kristur fær að vera í öndvegi í þessu landi okkar.
Það ljós, sem kviknaði í fjárhúsinu í Betlehem, má sumsé aldrei hverfa okkur. Við skulum því taka undir með hinum vitru: englunum og hirðunum og gestunum tignu frá Austurlöndum, og lofa almættið fyrir þessa dýrmætu gjöf, og minnast þess um leið, að Guð lætur vaka yfir hverjum og einum, í þessum heimi sem og öðrum.
Og að þeim orðum sögðum óska ég ykkur öllum gleðilegrar hátíðar og farsæls nýs árs," segir sr. Sigurður.