Starfsmenn Orkuveitunnar verða á vaktinni yfir jólin til að sjá til þess að rafmagn slái hvergi út og að allir hafi heitt og kalt vatn í jólabaðið. Sjö vinnuflokkar verða í viðbragðsstöðu víðs vegar um höfuðborgarsvæðið í þeim tilgangi að sinna útköllum þegar mesta álagið er á milli kl. 16 og 19 á aðfangadagskvöld.
Verkefnin eru margvísleg, allt frá því að aðstoða fólk við að skipta um öryggi í heimahúsum upp í að laga stærri kerfisbilanir, komi þær upp. Þá verða starfsmenn á vakt í stjórnstöð Orkuveitunnar og fylgjast með því að allt gangi vel fyrir sig, tilbúnir að grípa inn í geri bilanir vart við sig. Benedikt Einarsson er einn þeirra.
„Nei, það er alls ekki einmanalegt hér á aðfangadagskvöld,“ segir Benedikt. Fjölgað er á vaktinni á aðfangadag enda orkunotkun mikil. „Álag í íbúðahverfum er meira á þessu kvöldi en gengur og gerist vegna eldamennsku. Þá getur ýmislegt komið upp á,“ segir hann, en bætir við að sem betur fer séu alvarlegar bilanir fátíðari nú en áður fyrr.
Starfsmenn OR sem verða á ferðinni fá jólanesti frá kokknum og þeir sem eru í húsi gæða sér einnig á ljúffengum jólamat í tilefni dagsins. Maturinn er tekinn snemma, því eftir að eldavélarnar í borginni fara að mala er í nógu að snúast hjá starfsfólki OR.
Eftir að mesta álagið er yfirstaðið fer stærsti hluti starfsmannanna heim á leið. „Jólahald hefst því seinna hjá okkur en flestum öðrum,“ segir Benedikt. „En við mætum skilningi heima fyrir.“
Vakt er í Kerfisstjórn Orkuveitunnar á aðfangadag og fram á jólanótt og sjö viðbragðsteymi eru tilbúin úti í hverfum að grípa inn í ef eitthvað kemur upp á. Teymin verða á Kjalarnesi og í Mosfellsbæ, í Árbæjarhverfi, í Kópavogi og Garðabæ, í Breiðholtshverfi, í Grafarvogi, í Vesturbæ og á Seltjarnarnesi og í Sunda- og Vogahverfi.
Sími á Bilanavakt Orkuveitu Reykjavíkur er 516 6200.