Þrátt fyrir þæfingsfærð vegna snjókomunnar á höfuðborgarsvæðinu í dag hefur umferð gengið áfallalítið, að sögn lögreglunnar.
Tveir árekstrar urðu um þrjúleytið við Hvalfjarðargöngin, hver á fætur öðrum, og voru alls þrír fluttir á slysadeild. Enginn mun hafa verið alvarlega slasaður.
Mikil hálka og slæmt skyggni var á vettvangi.
Að sögn lögreglunnar var tilkynnt um einn árekstur til viðbótar á höfuðborgarsvæðinu í dag, hann varð á mótum Borgartúns og Kringlumýrarbrautar, en var minniháttar.
Snjó hefur kyngt niður í höfuðborginni í dag, og samkvæmt veðurspá tekur hann væntanlega ekki upp fyrr en um helgina. Margir snjókarlar og -kerlingar - og jafnvel -kettir - hafa sprottið upp í görðum borgarbúa í dag.