Danskir sjúkraflutningamenn höfðu í nógu að snúast á aðfangadagskvöld við að flytja fólk á sjúkrahús sem hafði borðað yfir sig af jólamáltíðinni, eða rúmlega 100 manns í Kaupmannahöfn og á Mið-Jótlandi.
Að sögn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins þurfti einnig að flytja íslenska matgæðinga á sjúkrahús um jólin, þó ekki jafnmarga og í Danmörku.
Margir landsmenn gæða sér á hamborgarhrygg og hangikjöti um jólin en það getur farið misvel í fólk. Að sögn varðstjóra hjá SHS er oftast um eldra fólk að ræða, sem er með háþrýsting. Það sama segja danskir sjúkraflutningamenn.
Hann segir að saltaður matur fari oft illa í eldra fólk, sem safni á sig vatni. T.d. geti vatn safnast í lungum. Blóðþrýstingurinn hækki jafnframt og fólk fari að finna fyrir verk í brjósti.