Vélsleðamaður slasaðist þegar hann ók á vegg á sveitabæ í nágrenni við Selfoss um kl. 16:30 í dag. Að sögn lögreglu var maðurinn óvanur vélsleðum, og gestkomandi á bænum, og leiddi ruglingur til þess að maðurinn gaf í í stað þess að hægja á sér.
Lögreglan segir að maðurinn hafi slasast á fæti, en hann skarst talsvert þegar hann fór með annan fótinn í gegnum rúðu. Maðurinn hugðist leggja sleðanum undir veggnum þegar slysið varð.
Maðurinn var fluttur á slysadeild í Reykjavík. Hann slapp hinsvegar við höfuðmeiðsl og beinbrot segir lögregla.
Vélsleðinn skemmdist talsvert við áreksturinn.