Ingibjörg Sólrún: Morðið á Bhutto mikil ógæfa

Benazir Bhutto.
Benazir Bhutto. Reuters

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra fordæmir harðlega morðið á Benazir Bhutto, leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Pakistan. „Ég tel að þetta sé mikil ógæfa, ekki aðeins fyrir Pakistan heldur fyrir heiminn allan,“ sagði Ingibjörg í samtali við mbl.is.

Ingibjörg segir að miklar vonir hafi verið bundnar við að Bhutto gæti átt þátt í því að koma á lýðræðislegum stjórnarháttum í Pakistan. Hún væri ákveðinn burðarás sem hægt væri að reiða sig á. „Hennar skarð er mjög vandfyllt.“

Þá segir hún ljóst að öfgafullir íslamistar séu að færa sig upp á skaftið í Pakistan. Það geti haft miklar afleiðingar í löndunum í kring. 

Aðspurð segir Ingibjörg að hún viti ekki til þess að Íslendingar séu staddir á svæðinu þar sem árásin var gerð.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert