Flugeldasala hefst formlega í dag, föstudag, og hefur að sögn Friðriks Gunnarssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, verið veitt leyfi fyrir innflutningi á 1.275 tonnum af flugeldum fyrir þessi áramót sem er hátt í 300 tonna aukning frá því í fyrra. Bjartsýni virðist líka gæta meðal flugeldasölumanna sem segja mikla jólaverslun venjulega ávísun á góða flugeldasölu.
Ekki ætti heldur að reynast erfitt að nálgast flugelda því útsölustaðir eru fjölmargir. Má þannig nefna að 71 aðili hafði sótt um leyfi til sölu á flugeldum á höfuðborgarsvæðinu og eins eru útsölustaðir Landsbjargar um 120 talsins um land allt.