Búast má við mikilli loftmengun á gamlárskvöld því skottertur og blys valda mestum reyk. Heilsuverndarmörk fyrir svifryk eru 50 míkrógrömm á rúmmetra en á nýársnótt fyrir ári mældust hálftímagildi svifryks við Grensásmælistöðina 1963 míkrógrömm á rúmmetra. Þétt loftmengun stóð þá yfir í fjóra tíma.
Umhverfissvið Reykjavíkur segir, að flugeldasorp muni liggja eins og hráviði um borgina að morgni nýs árs. Varar sorphirðan í Reykjavík fólk við að henda leifum af flugeldum í ruslatunnur. Kaupendur flugelda eiga að fara sjálfir með umbúðir og aðrar leifar í endurvinnslustöðvar Sorpu.
Áætlað er að 800 tonn af flugeldum verði sprengd upp í kringum áramótin. Spáð er að stórar skottertur njóti vinsælda meðal almennings og því líklegt að víða standi tómir tertukassar á nýársdag.