Kærð fyrir þvagsýnatöku

Læknir og hjúkrunarfræðingur hafa verið kærð til landlæknisembættisins eftir að hafa tekið þvagsýni úr konu gegn vilja hennar að kröfu lögreglunnar á Selfossi í mars síðastliðnum. Einn af læknum konunnar kærðiaðgerðirnar.

Mannréttindaskrifstofa Íslands hefur sent eftirlitsnefnd Sameinuðu þjóðanna upplýsingar um mál konunnar. Það er líka í skoðun hjá umboðsmanni Alþingis og hjá starfshópi sem samgönguráðherra skipaði.

Matthías Halldórsson aðstoðarlandlæknir segir landlæknisembættið líta málið alvarlegum augum en embættið hefur aldrei áður fengið mál þessu líkt inn á borð til sín.

Niðurstöðu er að vænta í byrjun næsta árs. Málið verður fyrst og fremst rannsakað út frá því hvort sjúklingnum hafi verið sýnd nægileg virðing, eins og lög um réttindi sjúklinga kveða á um. Matthías segir að í þeim tilvikum sem einstaklingar neita að veita til dæmis blóð- og þvagsýni geti lögregla ekki þvingað lækni til að taka prufu án samþykkis viðkomandi einstaklings.

„Læknir getur mótmælt lögreglu ef það stríðir gegn samvisku hans að gera slíka hluti. Allt mat er hjá lækninum sjálfum."

Þann 4. mars síðastliðinn var konan, sem er á fertugsaldri, flutt á lögreglustöðina á Selfossi vegna gruns um ölvun við akstur. Eftir að hafa neitað að gefa þvagsýni segist hún hafa verið tekin með valdi, færð í fangaklefa, sett á steinbedda og skellt á bakið. Lögreglumaður hafi legið ofan á efri hluta líkamanns, annar haldið mjöðmunum og aðrir fótunum. Hafi hún síðan verið tekin úr buxum og nærbuxum og þvagleggur settur upp.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert