Hjálparsveit skáta í Hveragerði leitaði í dag ferðamanns á svæðinu í kringum Reykjadal. Félagi mannsins, sem tilkynnti að hans væri saknað, hafði ekki heyrt í honum frá því á þriðjudag, en þá var hann staddur í skála á svæðinu.
Björgunarsveitin fann ummerki eftir manninn í skálanum en hann hafði dvalist þar 24.- 26. desember. Hvert ferðum hans var heitið eftir það var ekki vitað. Þyrla Landhelgisgæslunnar flaug leitarflug yfir Reykjadal án þess að finna vísbendingar en mikill snjór er í giljum og dölum og skafið hafði yfir öll för.
Maðurinn kom svo í leitirnar nú síðdegis en hann var þá staddur í Reykjavík.