Enex Kína stendur nú í mikilli uppbyggingu á hitaveitu í borginni Xianyang í Shaanxi-héraði í Kína og stefnir fyrirtækið á að byggja þar upp stærstu hitaveitu í heimi á næstu árum.
Enex Kína hefur byggt upp starfsemi sína í Shaanxi, sem er landlukt hérað með 37 milljónir íbúa, í Mið-Kína.
„Þetta er sögufrægt svæði því að á tímabili var þarna höfuðborg Kína," segir Gunnar Snorri Gunnarsson, sendiherra Íslands í Kína, og á þar við höfuðborg héraðsinsm, Xian, sem er gömul höfuðborg kínverska keisaradæmisins.
Xianyan þar sem Enex Kína hefur starfsstöð sína er í 50 kílómetra fjarlægð frá Xian. Íbúar Xianyang eru um fjórar milljónir. „Þetta er langt inni landi og þarna hafa málin vissulega þróast nokkuð vel og fram á við en mun hægar en meðfram ströndinni," segir Gunnar Snorri.
Hann segir að á þessu svæði sé mjög áberandi meginlandsloftslag, þar verði heitt á sumrin og kalt á veturna og því mikil þörf fyrir hitaveitu.
„Það sem er skemmtilegt við þetta er að við höfum orðið vör við það í sendiráðinu og annars staðar að það eru mjög margir í Kína að fylgjast með þessu og sjá hvernig þessu miðar áfram.Ýmis önnur svæði í Kína munu eflaust fylgja á eftir," segir Gunnar Snorri.
Ásgeir Margeirsson, stjórnarformaður Enex Kína, segir að borgaryfirvöld í Xianyang sýni mikinn stuðning en undir borginni er jarðhitalind sem hefur 90-110 gráða heitt vatn í miklum mæli, sem hefur hingað til verið að mestu ónýtt.