Þeir líkja eftir okkar útliti

Birgir Stefánsson og Runólfur Hjalti Eggertsson gera klárt fyrir flugeldasöluna.
Birgir Stefánsson og Runólfur Hjalti Eggertsson gera klárt fyrir flugeldasöluna. Friðrik

Flugeldasala björgunarsveitanna hefst í dag venju samkvæmt og verður selt fram að áramótum að sögn Harðar Sveinssonar, umsjónarmanns flugeldasölu hjá Björgunarsveitinni Ársæli. „Það er yfirleitt mest sala 30. og 31. desember. Fólki er ekki vel við að geyma flugelda lengi heima hjá sér, sem er bara gott," segir hann.

Milli 70 og 80% af rekstrartekjum björgunarsveitanna koma úr flugeldasölu. Mörg slys á fólki af yngri kynslóðinni hafa orðið til þess að björgunarsveitirnar hafa sett reglur um lágmarksaldur við kaup á flugeldum. „Það eru reyndar tilmæli frá slysavarnafélaginu að fara upp í 18 ár, en við og aðrar sveitir á höfuðborgarsvæðinu höfum sett okkur markmið um að selja ekki neitt púður til barna yngri en 16 ára," segir Hörður.

Hann segist ekki vita til þess að aðrir hafi sett sér sérstakar reglur um sölu flugelda en lögum samkvæmt má selja 12 ára og eldri allt sem er ekki með priki, 16 til 18 ára má selja smærri flugelda og eldri en 18 ára geta keypt hvað sem er. Hörður segist ekki geta reiknað út hve mikil sala björgunarsveitanna er miðað við samkeppnisaðilana. „Einstaklingar sem fjármagna einkaneyslu með flugeldasölu, pirra okkur mest," segir Hörður.

„Þegar þeir eru farnir að planta sér niður við hliðina á björgunarmiðstöðvunum eða líkja eftir okkar útliti, hafa starfsfólk í rauðum peysum og slíkt, þá er spurning hvort þeir séu að selja á réttum forsendum."

Hann segir ágóðann af flugeldasölunni fara allan í starf sveitanna og bætir við að jafnvel hjá íþróttafélögunum eða Kiwanisklúbbum fari ágóðinn í jákvætt starf.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert