Ávöxtun lífeyrissjóða á núlli

Raunávöxtun lífeyrissjóðanna verður nálægt núlli á árinu sem er að líða. Þetta er mikil breyting frá því sem verið hefur en afkoma sjóðanna hefur verið afar góð síðastliðin þrjú ár. Meðalraunávöxtun sjóðanna var um 10% í fyrra og um 13% árið 2005.

Verð á hlutabréfum hefur fallið mikið síðari hluta ársins bæði hér heima og erlendis. Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri lífeyrissjóðsins Gildis, segir að ávöxtun af innlendum hlutabréfum á árinu sé engin og niðurstaðan sé svipuð á erlendum hlutabréfum. Krónan hafi styrkst á árinu sem dragi úr ávöxtun á erlendum eignum sjóðanna. Árni segir að þó að ávöxtun á síðari helmingi ársins hafi verið slæm sé þó ljóst að raunávöxtun Gildis verði jákvæð á árinu. Hann segist hins vegar ekki vera viss um að það eigi við um alla lífeyrissjóði landsins.

Margir lífeyrissjóðir hafa aukið réttindi sjóðsfélaga á undanförnum árum vegna góðrar ávöxtunar. Gildi hefur t.d. aukið réttindi um rúmlega 17% á skömmum tíma. Lífeyrissjóður verslunarmanna hefur einnig verið að auka réttindi og hækkaði þau síðast um 10% í byrjun þessa árs. Árni segir nokkuð ljóst að engir lífeyrissjóðir muni auka réttindi sjóðsfélaga á þessu ári.

Ávöxtun lífeyrissjóðanna var mjög góð á fyrri hluta ársins. Hún var t.d. 17,6% á fyrstu sex mánuðum ársins hjá lífeyrissjóðnum Gildi og nokkuð lægri hjá Lífeyrissjóði verslunarmanna. Lækkun hlutabréfa á síðari hluta ársins hefur hins vegar étið upp þessa hækkun og gott betur. Ávöxtun á skuldabréfum er hins vegar ágæt á árinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert