Haftyrðill endaði ævina í bifreið

Haftyrðlar á sjónum við Siglufjörð.
Haftyrðlar á sjónum við Siglufjörð. mbl.is/Steingrímur

Á föstudag fannst haftyrðill inni í bifreið í Kópavogi, en haftyrðillinn hefur komist inn um 6-7 cm breiða rifu á glugga bifreiðarinnar sem skilin hafði verið eftir í ógáti á jóladag. Þar endaði fuglinn ævi sína í framsæti bifreiðarinnar, að því er fram kemur á vef Náttúrufræðistofu Kópavogs.

Fram kemur að hann hafi væntanlega verið saddur lífdaga þar sem hann var kominn nokkuð við aldur.

Enda þótt haftyrðlar teljist afar sjaldgæfir hérlendis er þetta ekki í fyrsta skipti sem hann finnst í Kópavogi. Í janúar 2003 fannst dauður haftyrðill í garði í Lautarsmára.

Haftyrðlar (Alle alle) eru mestmegnis vetrargestir við Ísland og finnast umhverfis allt landið, einkum þó fyrir norðan og austan. Stofnstærðin að vetrarlagi er á bilinu 1.000-10.000 fuglar. Þeir sjást vart lengur hér við landi að sumri til og líklega er síðasta varpparið í Grímsey hætt að verpa þar. Talið er að hlýnun sjávar eigi drjúgan þátt í hvarfi haftyrðlanna, segir á vef Náttúrufræðistofu Kópavogs.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert