Hundeltur af krónu í kerfinu

Innheimtubréfið vegna krónunnar.
Innheimtubréfið vegna krónunnar.

„Við viljum minna þig á að skuld þín hjá Og Vodafone er komin í vanskil,“ segir í upphafi innheimtubréfs sem karlmanni barst frá Intrum Justitia nú rétt fyrir jólin. Skuldin sem um ræðir og Intrum hefur tekið að sér að innheimta er ein króna. Er hún orðin þriggja ára gömul.

Með kostnaði og ítrekunargjaldi er skuld mannsins við fyrirtækið nú komin upp í 1.351 krónu og óskast greidd innan tíu daga frá dagsetningu bréfsins, ellegar hækki hún enn frekar.

„Mér brá heldur betur í brún þegar ég fékk umslagið frá Intrum og hélt að ég væri lentur í einhverjum hrikalegum vandamálum,“ segir maðurinn. „En þegar ég opnaði umslagið komst ég að því að höfuðstóllinn er þessi eina króna sem er búin að hlaða utan á sig.“

En þetta er ekki í fyrsta skipti sem maðurinn lendir í vandræðum vegna þessarar sömu krónu. Haustið 2004 var hann staddur erlendis og komst þá að því að farsímanum hans hafði verið lokað. Kom það manninum verulega á óvart því fyrirtækið sem hann starfar hjá átti númerið og greiddi alla reikninga samviskusamlega.

Er maðurinn kom heim hafði hann samband við Og Vodafone og í ljós kom að hann var í einnar krónu skuld við fyrirtækið. Það var svo aftur ástæða þess að símanúmerinu var lokað. „Það skilur enginn hvernig þessi skuld myndaðist hjá mér persónulega og hvað þá að símanum skuli hafa verið lokað út af einni krónu,“ segir maðurinn.

Starfsmaður Og Vodafone lofaði manninum að skuldin yrði strikuð út og átti hann sér því einskis ills von þegar bréfið frá Intrum barst fyrir jólin.

„Ég hef engar áhyggjur haft fyrr en núna, þremur árum seinna, þegar ég fæ rukkun rétt fyrir jólin.“

Maðurinn hafði samband við Intrum eftir að innheimtuseðillinn barst og baðst fyrirtækið afsökunar og sagði að um mistök væri að ræða. „Þannig að ég þarf ekki að borga krónuna né uppsafnaðan kostnað vegna hennar.“

Hann er þó ekki alveg í rónni. „Ég er ekki sannfærður um að skuldin hafi verið felld niður,“ segir maðurinn og talar af biturri reynslu. „Það var fullyrt fyrir þremur árum að það yrði gert en annað kom á daginn. Ég treysti því engu. Ég býst alveg eins við því að þessi króna muni halda áfram að elta mig í kerfinu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert