Þráinn Sigvaldason, sem er í svæðisstjórn Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, sagði í viðtali við blaðamann mbl.is nú í kvöld að ekki væri vitað til þess að slys hefðu orðið á mönnum eða skepnum í óveðrinu sem nú gengur yfir Austurland. Hann segir menn þó vart muna eftir öðru eins veðri og að rafmagnsleysi hafi gert aðstæður enn erfiðari á Héraði en ella.
Þráinn sagði um 50 manns vinna að því að aðstoða fólk á Héraði og að björgunarsveitarmenn þar hafi farið í um 40 útköll frá því um klukkan hálf sjö í kvöld. Þá sagði hann aðallega vera um fok frá vinnusvæðum að ræða og að hann vissi til þess að hús og bíll hefðu orðið fyrir skemmdum vegna foks. Einnig sagði hann útlit fyrir að töluverðar skemmdir hefðu orðið á gróðurhúsi Nýja Barra í Fellabæ. Það verði hins vegar kannað betur þegar veðrið gangi niður.