Heldur rólegra hefur verið að gera í Samhæfingarmiðstöðinni í Skógarhlíð í dag og nótt miðað við fyrr í þessum mánuði þegar djúpar lægðir fóru yfir með miklum látum. Nokkrar tilkynningar um foktjón hafa borist, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum. Ekkert ferðaveður er á Suður- og Vesturlandi.
Í Hafnarfirði fauk byggingarkrani, þakklæðning losnaði í hvassviðrinu í Vestmannaeyjum og rúða brotnaði í Borgarnesi skv. upplýsingum úr Samhæfingarmiðstöðinni.
Rögnvaldur Ólafsson, lögreglufulltrúi hjá almannavarnardeild ríkislögreglustjóra, segir að engan hafi sakað í óveðrinu. Hann segir að það sé að ná hápunkti þessa stundina á höfuðborgarsvæðinu. Íbúar höfuðborgarsvæðisins mega hinsvegar búast við því að það verði hvasst fram eftir degi.
Talsvert hefur verið að gera hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins vegna vatnsleka. Búast má við því að slíkum tilkynningum muni fjölga þegar á líður daginn.
Björgunarsveitir eru í viðbragðsstöðu og sinna þeim verkefnum sem koma upp vegna veðursins.
Á Vestfjörðum er þungfært um Klettsháls og óveður og þæfingsfærð um Kleifaheiði. Óveður og hálka er á Gemlufallsheiði, Flateyrarvegi, og í Súgandafirði. Verið er að moka Ísafjaðrardjúp.
Óveður er frá Brú í Hrútafirði að Blönduósi. Hálka, hálkublettir og skafrenningur er á Norðurlandi. Á Norðausturlandi er víðast hvar hálka, hálkublettir og skafrenningur. Á Austurlandi og Suðausturlandi er hálka á allflestum vegum