„Það er ekkert sem bendir til annars en að matvælaverð muni fara stórhækkandi á næstunni,“ segir Andrés Magnússon, formaður Félags íslenskra stórkaupmanna. Fram hefur komið að verð á ýmsum hráefnum til matvælaframleiðslu hefur hækkað mjög að undanförnu.
Andrés segir að hráefniskostnaðurinn haldi áfram að aukast í fyrirsjáanlegri framtíð.
„Hinar varanlegu ástæður eru tvær. Annars vegar er stóraukin eftirspurn eftir þessum sömu matvælum og við neytum frá nýríkum þjóðum eins og Kína og Indlandi,“ segir Andrés.
Hin ástæðan sé sú ákvörðun Bandaríkjastjórnar og fleiri ríkja að framleiða lífrænt eldsneyti til að nota á bifreiðar. Þetta hafi m.a. leitt til þess að verð á maís hafi hækkað upp úr öllu valdi. Andrés segir að auk þessa sjái menn æ meiri afbrigði í veðurfari. Bæði hafi orðið þurrkar og flóð og þetta hafi haft áhrif.