Ekki hægt að keppa við laun útlendra sjómanna

Íslenskir sjómenn geta ekki keppt við erlenda sjómenn í launum því launakostnaður þessara manna er um það bil 90 þúsund á mánuði og jafnvel minna og inni í þessum launum er 100 yfirvinnutímar. Þetta kemur fram í ályktun frá Sjómannafélags Íslands.

„Ef fer sem horfir sjáum við ekki annað í stöðunni að íslenskri farmannastétt muni blæða út fljótlega. Farskipaútgerðirnar eru í æ meiri mæli að ráða erlenda sjómenn á skipin sín til að lækka hjá sér launakostnað. Íslenskir sjómenn geta ekki keppt við þessa erlendu sjómenn í launum því launakostnaður þessara manna er um það bil 90 þúsund á mánuði og jafnvel minna, inní þessum launum er 100 yfirvinnutímar.

Þegar frjálsræðið er orðið slíkt að útgerðirnar geta ráðið erlenda sjómenn á lúsarlaunum, er þá ekki orðið tímabært að fara skilja á milli útgerðar og vöruafgreiðslu til þess að gera öllum jafnt undir höfði og auka samkeppni og lækka farmgjöld. Því í dag eru stóru farmskipaútgerðirnar með yfirburða stöðu í Reykjavíkurhöfn og víðar," að því er segir í ályktun Sjómannafélags Íslands.

Í annarri ályktun aðalfundar Sjómannafélags Íslands segir: „Mótmælum því harðlega að ekkert hefur verið komið á móts við sjómenn vegna þeirra gífurlegu skerðingar sem hefur orðið á fiskveiðiheimildum.

Nú á að fella niður veiðileyfagjaldið á útgerðirnar en sjómenn skildir einir eftir með umtalsverðar skerðingar á launum.

Er ekki tímabært stjórnmálamenn á Íslandi að átta sig á því að það þurfi fleiri að lifa á þessu landi en atvinnurekendur, fjármagnseigendur og þeir þjálfir."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert