Það verða engar áramótabrennur á höfuðborgarsvæðinu í kvöld. Þetta er ákvörðun sem slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu tók í samráði við lögreglu og veðurfræðing fyrir skömmu. „Það hefur enginn gaman af að horfa á láréttar brennur," sagði Árni Ómar Árnason varðstjóri slökkviliðsins.
„Það er alveg pottþétt, það verða engar brennur í kvöld en málið verður athugað með nýrri veðurspá að morgun," sagði Árni Ómar í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins fyrir skömmu.
Miðað er við 15 sekúndumetra vind, en ekki er talið óhætt að kveikja í áramótabrennum í vindi sem fer yfir þau mörk, sem er sama veðurhæð og þeir sem stýra byggingakrönum miða við.
Í frétt sem birtist á fréttasíðu Fljótsdalshéraðs segir að áramótabrenna verði venju samkvæmt á nesinu norðan við gamla Blómabæ á Egilsstöðum, á gamlársdag. Eldur verður borinn að brennunni kl. 16.30, sem er fyrr en venjulega. Stuttu síðar fer fram flugeldasýning í umsjón Björgunarsveitarinnar Héraðs.