Lögreglan á Selfossi kærði ökumann um borð í Herjólfi í liðinni viku en maðurinn var að hagræða bifreið sinni í stæði um borð í skipinu. Reyndist maðurinn vera ökuréttindalaus en hann hafði verið sviptur ökuleyfi. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu er þetta í fyrsta skipti sem lögreglan á Selfossi kærir ökumann fyrir að aka bifreið sviptur ökuréttindum um borð í skipi.
Þegar starfsmenn JÁ verk komu til vinnu á þriðja í jólum þar sem þeir eru að reisa vatnsverksmiðju í landi Hlíðarenda í Ölfusi gripu þeir í tómt. Nýlegum verkfærum hafði verið stolið yfir jólahátíðirnar. Þjófurinn hafði brotið sér leið inn í verkfærageymslu með því að spenna upp hurð með kúbeini. Nánast öllum rafmagnsverkfærum var stolið en þau voru keypt ný fyrir um þremur vikum. Tjónið er talið hlaupa á hundruðum þúsunda króna. Lögreglan á Selfossi biður þá sem veitt geta upplýsingar um málið að hafa samband í síma 480 1010.
Tvær líkamsárásir voru kærðar til lögreglu á Selfossi í síðustu viku. Í öðru tilvikinu réðust þrír menn á mann við skemmtistaðinn Hvíta húsið á Selfossi aðfaranótt þriðja í jólum. Fórnarlambið nefbrotnaði. Árásarmennirnir voru yfirheyrðir daginn eftir og gengust við árásinni.
Aðfaranótt laugardags var kallað eftir aðstoð í heimahús í Hveragerði vegna manns sem þar var gestkomandi og hafði ráðist á húsráðendur. Maðurinn hafði lent í einhverjum orðræðum við gestgjafa sína sem lyktaði með því að hann skallaði annan húsráðanda en krafsaði gleraugu af hinum. Þegar lögreglumenn hugðust leiða árásarmanninn út gerði hann tilraun til að ráðast á lögreglumann. Maðurinn var vistaður í fangageymslu og yfirheyrður næsta dag.
Þrjú fíkniefnamál komu upp í síðustu viku. Fangaverðir á Litla-Hrauni fundu fíkniefni hjá einum fanga. Fíkniefni fundust við húsleit hjá manni á Eyrarbakka. Ökumaður var stöðvaður á Selfossi og var fíkniefnahundurinn Bea, sem var með lögreglumönnunum, mjög áhugasöm um bifreið og ökumann. Lögreglumenn gerðu því leit í bifreið og á manninum sem leiddi til þess að kannabisefni fundust á manninum. Í öllum þessum málum var um lítilræði af fíkniefnum í fórum mannanna.
Að kvöldi föstudags var farið í húsleit á Selfossi vegna gruns um að þar væri að finna fíkniefni. Engin fíkniefni fundust. Hins vegar fundu lögreglumenn neyslutól, loftbyssu og lifandi slöngudýr. Dýrið var aflífað af dýralækni og það sent á rannsóknarstofu til rannsóknar. Málið er í rannsókn með tilliti til ólöglegs innflutnings á dýri og vopnalögum.
Maður skarst illa á fæti á föstudag er vélsleði sem hann var á lenti á húsvegg með þeim afleiðingum að fótur mannsins fór í gegnum rúðu á veggnum. Slysið átti sér stað á bæ í Grímsnesi. Maðurinn var óvanur sleðanum og mun hann hafa aukið afl þegar hann ætlaði að stöðva sleðann með þessum afleiðingum.