Snurða hljóp á þráðinn í samkiptum flugeldasala á Akureyri í morgun og þurfti að kalla lögreglu til. Súlur björgunarsveitin á Akureyri er að selja flugelda í höfuðstöðvum sínum við Hjaltaeyrargötu og aðeins norðar, eða við gamla Sanavöllinn eru Bjarni Sigurðsson, starfsmaður Dreggs, og fleiri að selja flugelda úr gámi, á lóð sem Dregg hefur fengið úthlutað.
Súlur eru með auglýsingaskilti við norðurenda lóðarinnar og þegar þangað var líka kominn merktur bíll frá björgunarsveitinni, þótti Bjarna nóg komið og lagði hann sendiferðabíl fyrir skilti björgunarsveitarmanna, að því er fram kemur á vef Vikudags.
Eftir að lögreglan kom á staðinn og ræddi við aðila, varð niðurstaðan sú að báðir bílarnir voru fjarlægðir af vettvangi en auglýsingaskilti Súlna stóð eftir. Björgunarsveitarmenn voru mjög ósáttir við þetta uppátæki Bjarna að leggja bílnum fyrir skiltið. Þeir minntu á að ekki væri langt síðan að björgunarsveitarmenn hafi komið til aðstoðar eftir að flutningaskipið Axel strandaði við Hornafjörð en Axel er í eigu Dregg Shipping og Bjarni framkvæmdastjóri fyrirtækisins.