Náttúran lífsgrundvöllur okkar

Íslensk náttúra er ekki alltaf blíð
Íslensk náttúra er ekki alltaf blíð mbl.is/RAX

Fegurðin er ekki hið eina sem íslensk náttúra veitir okkur.  Hún er jafnframt undirstaða og lífsgrundvöllur okkar, uppspretta auðs og framfara. Þetta kom fram í áramótaávarpi Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, í kvöld.

„Lykilorð okkar tíma er sjálfbærni, sjálfbær þróun og nýting, og á jafnt við um auðlindir sjávar sem aðrar.  Það felur í sér að taka ekki meira  en undirstaðan þolir, eða eins og oft var sagt áður, skerða ekki höfuðstólinn. 

Við Íslendingar erum gæfuþjóð að þessu leyti.  Okkur hefur auðnast að byggja á þessari gullvægu reglu með nýtingu vatnsafls og jarðvarma.  Það eru ekki margir áratugir síðan dökkur kolareykurinn grúfði yfir byggðum landsins og engin var hitaveitan.

Víða er litið til Íslands um fyrirmyndir til að byggja upp heillavænlega nýtingu auðlinda.  Þeir sem hafa ferðast um stór þróunarlönd, t.d. í Asíu eða Afríku, hafa séð hvað orðið „mengun" raunverulega merkir - hvílíkan óraveg margar slíkar þjóðir eiga því miður ófarinn til að komast nærri okkur í náttúruvernd og mengunarvörnum.  Nauðsynlegt er að gæta að þessari heildarmynd þegar um þessi mál er rætt," sagði Geir.

Forsætisráðherra kom inn á komandi kjarasamninga á almennum vinnumarkaði í áramótaávarpi sínu og þar með mikilvægar ákvarðanir í efnahagsmálum Íslendinga. 

„Reynsla undanfarinna ára vekur sannarlega vonir um framhald farsællar stefnu.  Í forystusveit launamanna og vinnuveitenda er ábyrgt fólk sem hefur lært það af reynslunni að hóflegir kjarasamningar sem byggja á traustu atvinnulífi og stöðugleika í efnahagsmálum leiða til mestra kjarabóta. 

Allar mælistikur sem hægt er að nota sýna okkur það og sanna.  Með ábyrgri stefnu má framlengja það framfaraskeið sem við höfum verið á.  Ríkisstjórnin er fús til að koma að því borði eftir því sem nauðsyn krefur," sagði Geir.

Geir H. Haarde
Geir H. Haarde Sverrir Vilhelmsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert