Ólafur Ragnar Grímsson, ætlar að bjóða sig fram til endurkjörs í embætti forseta Íslands. Þetta kom fram í nýársávarpi hans í sjónvarpinu. Ólafur Ragnar hefur verið forseti Íslands frá árinu 1996 eða í tólf ár.
„Embætti forseta Íslands var í öndverðu tákn um sigur fátækrar þjóðar og kannski er eitt mikilvægasta hlutverk þess á okkar tímum fólgið í liðveislu á vettvangi sjálfstæðisbaráttu nýrrar aldar, að gagnast ungu fólki í glímunni um framtíðina og taka þannig þátt í að sannfæra sérhvern ungan Íslending um að besti kostur hans eða hennar sé að hafa ættjörðina að athafnavelli, að helga Íslandi heimili sitt og fjölskyldulíf.
Það hefur veitt mér mikla gleði að vinna með ykkur að þessum verkum og ég mun ætíð meta mikils trúnaðinn sem þjóðin hefur falið mér. Sé það nú á nýju ári vilji Íslendinga að ég beri áfram þessa ábyrgð er ég fús að axla hana en veit um leið af eigin reynslu að embætti forseta Íslands fylgja ríkar skyldur. Enginn getur innt þær af hendi svo vel sé nema njóta trausts meðal þjóðarinnar," sagði forseti Íslands í ávarpi sínu.
Tími kominn til að hægja á í eyðslunni og gæta hófs
Ólafur Ragnar segir að kannski sé kominn tími til að við hægjum aðeins á kapphlaupinu, hefjum að nýju til vegs hófsemi og aðrar dyggðir sem byggðar eru á mannlegum gildum.
„Þótt við höfum á stundum verið miklir eyðsluseggir Íslendingar og sú athafnasemi knúið aflvélar atvinnulífsins kann á komandi árum að vera skynsamlegt að venda sínu kvæði í kross, setja sparnað í öndvegi, gera aðhald og nýtni að aðalsmerki, nota áfram góða hluti í stað þess að kaupa sífellt eitthvað nýtt.
Árangur Íslendinga í efnahagsmálum er að sönnu athyglisverður en of mikil eyðsla er veikur hlekkur. Sé ætlunin að tryggja þjóðinni stöðugleika verður að sýna gætni, fara varlegar í framtíðinni.
Við þurfum að festa í sessi gildismat sem byggt er á dyggðunum sem ömmur okkar og afar mátu mikils, fólkið sem kom Íslandi úr fátækt til góðra efna," sagði forseti Íslands.
Ólafur Ragnar kom inn á stöðu íslenskunnar í ávarpi sínu og lofaði hlut Jónasar Hallgrímssonar í að viðhalda og endurnýja hana. Segir Ólafur Ragnar að
einungis hugarleti eða tískudaður eru afsökun fyrir því að veita enskunni nú
aukinn rétt.
Orkuútrás getur styrkt stöðu landsins ef rétt er á haldið
Forseti Íslands kom einnig inn á útrás banka og orkufyrirtækja í nýársvarpinu og hvernig hún hefur nýst til að mynda íslenskum námsmönnum. Segir hann að það hafi skipt sig miklu að geta lagt þessum fyrirtækjum lið í útrásinni og um leið ungu fólki sem lært hefur greinar eins og raungreinar og viðskiptagreinar.
„Sem betur fer hefur tekist einkar vel að skapa ungum Íslendingum ríkuleg tækifæri til að tvinna saman rætur á heimaslóð og athafnasemi á veraldarvísu, en þó er engan veginn sjálfgefið að svo verði áfram.
Hér hefur útrásin, hin víðtæku alþjóðlegu umsvif í viðskiptum, vísindum og menningarlífi, skipt sköpum, veitt þúsundum tækifæri til að sanna getu sína, ná árangri sem nýst hefur allri þjóðinni vel.
Með vissum hætti er útrásin ein af mikilvægum ástæðum þess að við Íslendingar stöndum vel að vígi í sjálfstæðisbaráttu nýrrar aldar. Hún er ríkur þáttur í sterkri stöðu þjóðarinnar, sönnun sem dugir ungu fólki þegar spurt er hvort það vilji veðja á ættjörðina.
Efnilegir vísindamenn og sérfræðingar finna í öflugum háskólum og rannsóknarstofnunum hér heima leiðir til þátttöku í alþjóðlegri þekkingarsköpun.
Síaukinn áhugi á íslenskri menningu, bókmenntum og listum í öðrum löndum veitir nýrri kynslóð aukinn kraft til að helga sig hinni listrænu köllun.
Árangur banka og íslenskra fyrirtækja víða um veröld hefur skapað nýjan vettvang fyrir athafnafólk og námsmenn sem sótt hafa þekkingu í fjármálum og viðskiptum til háskóla í ýmsum löndum.
Orkuútrásin getur líka, ef rétt er á haldið, styrkt til muna stöðu Íslands, veitt ungu fólki sem áhuga hefur á jarðfræði, náttúruvísindum, verkfræði og tæknistörfum fjölþætt tækifæri til að nýta menntun sína. Um leið hjálpum við öðrum þjóðum að virkja hreinar orkulindir og eflum baráttuna gegn breytingum á loftslaginu, tökum öflugan þátt í brýnasta verkefni þessarar aldar.
Það hafa verið forréttindi fyrir mig að leggja sókn á svo mörgum sviðum nokkurt lið, greiða götu unga fólksins," sagði Ólafur Ragnar í nýársávarpi sínu.