Úrkomumet virðast hafa verið slegin í Reykjavík, bæði í desembermánuði einum sem og á ársvísu, en ársúrkoman í Reykjavík hefur ekki verið meiri síðan 1921. Þetta kemur fram á Veðurvaktinni, bloggvef Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings.
Í bráðabirgðatíðarfarsyfirliti frá Veðurstofu Íslands, sem Trausti Jónsson veðurfræðingur tók saman, kemur fram að árið 2007 hafi verið mjög hlýtt, það 10. hlýjasta frá upphafi mælinga á velflestum stöðum um sunnan- og vestanvert landið og það 14.-15. hlýjasta norðaustanlands. Óvenjuúrkomusamt var á árinu, en úrkomutíð hefur staðið samfellt á Suður- og Vesturlandi frá því í ágúst. Þurrt var hins vegar langt fram eftir sumri á mestöllu landinu. Norðaustanlands var úrkoma hins vegar nærri meðallagi þegar litið er á árið í heild.
Mjög hlýtt var einnig fyrstu dagana í maí, en annars var mánuðurinn kaldur og snjóaði víða. Júní- og júlímánuður voru hlýir og þurrir víðast hvar á landinu. Í ágúst skipti hins vegar rækilega um veðurlag og hafa mánuðirnir september til desember verið óvenjuúrkomusamir um sunnan- og vestanvert landið en nyrðra þornaði eftir því sem á haustið leið. Mjög snjólétt hefur verið það sem af er vetri.