Ólöf Ýrr Atladóttir ráðin ferðamálastjóri

Ólöf Ýrr ásamt iðnaðarráðherra.
Ólöf Ýrr ásamt iðnaðarráðherra.

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra, sem tók við málefnum ferðaþjónustunnar um áramótin, hefur ráðið Ólöfu Ýrr Atladóttur, framkvæmdastjóra vísindasiðanefndar, ferðamálastjóra frá 1. janúar 2008 til næstu fimm ára. Samgönguráðuneytið auglýsti embættið laust til umsóknar í nóvember og sóttu 50 um starfið.

Í tilkynningu kemur fram að Ólöf Ýrr hefur að baki fjölbreytt nám í stjórnsýslu- og þróunarmálum, náttúruvísindum og íslensku í Háskóla Íslands og University of East Anglia.

„Ólöf Ýrr hefur góða þekkingu á alþjóðamálum og hefur lagt sérstaka áherslu á breytingastjórnun. Hún hefur reynslu á sviði ferðaþjónustu úr landvörslu og fararstjórn, og var einnig forstöðumaður Kviku, fræðagarðs við Mývatn," samkvæmt tilkynningu.

Staðfestir umsækjendur um starf ferðamálastjóra voru 50 talsins. Á grundvelli fyrirliggjandi gagna voru 20 umsækjendur kallaðir til viðtals. Þrír þeirra þóttu öðrum fremur hafa þá menntun, starfsreynslu og faglegan bakgrunn, sem krafist var samkvæmt auglýsingu til að gegna starfi ferðamálastjóra. Ráðherra valdi Ólöfu Ýrr úr síðasttalda hópnum með tilliti til forystuhæfileika og markmiðs jafnréttislaga.

Ferðamálastjóri veitir Ferðamálastofu forstöðu og ræður annað starfsfólk stofnunarinnar. Á Ferðamálastofu er alls um 20 starfsmenn en stofnunin rekur fimm skrifstofur innanlands og utan. Hún fer með framkvæmd ferðamála undir yfirstjórn ráðuneytisins. Ferðamálastjóri situr fundi ferðamálaráðs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert