Íslensk stjórnvöld harma ákvörðun stjórnvalda á Sri Lanka sem hafa sagt upp vopnahléssamkomulagi við Tamíl Tígra. Þá segja stjórnvöld að ljóst sé að ákvörðunin muni setja starfsemi vopnahléseftirlitssveitarinnar í uppnám.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu, en hún er eftirfarandi:
„Stjórnvöld á Sri Lanka hafa ákveðið að segja upp vopnahléssamkomulagi stjórnvalda og baráttusamtaka Tamíl Tígra (LTTE) sem verið hefur í gildi síðan í febrúar 2002. Samkvæmt ákvæðum samkomulagsins skal tilkynna norska utanríkisráðuneytinu það með 14 daga fyrirvara verði samkomulagið fellt úr gildi af öðrum hvorum aðilanum. Formleg tilkynning liggur ekki fyrir, en stjórnvöld á Sri Lanka hafa gert fyrirætlun sína opinbera.
Íslensk stjórnvöld harma þessa ákvörðun stjórnvalda í Kolombó og óttast að hún verði til þess að auka enn hörmungar íbúa landsins. Eftirlit vopnahléseftirlitssveitarinnar á Sri Lanka (SLMM - Sri Lanka Monitoring Mission) hefur, þrátt fyrir aukin átök og vopnahlésbrot undanfarið, haft hamlandi áhrif á stríðandi fylkingar í landinu og haldið opnum tengslum við báða deiluaðila. Án eftirlitsins er hætta á að átökin verði bæði grimmilegri og víðtækari.
Ljóst er að uppsögn vopnahléssamkomulagsins mun setja starfsemi SLMM í uppnám enda er umboð og öryggistrygging eftirlitssveitanna alfarið byggð á samkomulaginu. Utanríkisráðuneyti Noregs og Íslands eru í nánu samstarfi um málið og munu taka ákvörðun um starfsemi SLMM þegar formlegar upplýsingar berast frá stjórnvöldum á Sri Lanka. Níu íslenskir friðargæsluliðar eru starfandi innan eftirlitssveita SLMM.“