Svifryksmengun fór yfir heilsuverndarmörk á nýársdag. Á fyrsta hálftíma ársins mældust gildin um 500 míkrógrömm á rúmmetra við færanlegra mælistöð mengunarvarna Umhverfissviðs Reykjavíkur, sem nú er í Hlíðahverfi. Þetta telst mjög mikið því bæði var vindhraði töluverður og úrkoma nokkur.
Heilsuverndarmörk fyrir svifryk á sólarhring eru 50 míkrógrömm á rúmmetra.
Sólarhringsgildi svifryks við mælistöðina í Hlíðahverfi var 53 míkrógrömm á rúmmetra á nýársdag en við mælistöð Umhverfissviðs við Grensásveg var það undir heilsuverndarmörkum eða 33 míkrógrömm. Klukkan 18 á nýársdag mældist hálftímagildi svifryks 455 míkrógrömm í Hlíðunum, sennilega vegna flugeldaskota í hverfinu.
Sólarhringsgildi svifryks í Reykjavík mældist 17 sinnum yfir heilsuverndarmörkum á mælistöð við Grensásveginn árið 2007 en mátti fara 23 sinnum yfir samkvæmt reglugerð. Árið 2008 má svifryksmegum fara 18 sinum yfir heilsuverndarmörk, 12 sinnum árið 2009, og sjö sinnum árið 2010.