Frá og með 1. janúar 2008 mun umsóknargjald fyrir vegabréfsáritun til Bandaríkjanna hækka úr 100 Bandaríkjadölum í 131 Bandaríkjadal. Hækkunin mun auðvelda bandaríska utanríkisráðuneytinu að standa straum af gjöldum sem eiga að betrumbæta umsóknarferlið vegna vegabréfsáritana, t.d. vegna skólavistar og ferðalaga.
Fram kemur í fréttatilkynningu frá bandaríska sendiráðinu að utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna verði samkvæmt lögum að reyna að vega upp á móti kostnaðinum vegna útgáfu vegabréfsáritana með því að rukka umsóknargjald vegna tölvulesanlegra vegabréfsáritana. Gjöld vegna aukinna öryggisráðstafana, upplýsingakerfa og verðbólgu hafa stuðlað að hærri kostnaði.
Vegabréfsáritun til Bandaríkjanna getur gilt í allt að tíu ár en það fer þó eftir því á hvaða forsendum sótt er um áritun. Nánari upplýsingar um vegabréfsáritanir fást á síðu bandaríska sendiráðsins í Reykjavík iceland.usembassy.gov