Eldsneytisverð hækkaði hjá N1 bensínstöðvunum í dag. Bensínlítrinn hefur hækkað um 1,5 krónur og verð á dísilolíulítra um 0,50 krónur. Almennt bensínverð í sjálfsafgreiðslu kostar því nú 134,40 krónur hjá N1 og dísilolíulítrinn kostar 136,90 krónur.
Að sögn Magnúsar Ásgeirssonar, innkaupastjóra hjá N1, var verð hækkað síðdegis í dag. Hann segir hækkun á heimsmarkaði útskýra hækkunina hjá N1. Þá útilokar hann ekki að verðið muni hækka frekar. Verið er að fylgjast með þróuninni á olíumarkaðinum.
Verð hjá bensínstöðvum Olís og Skeljungi er enn óbreytt. Almennt bensínverð hjá Skeljungi og Olís í sjálfsafgreiðslu er 132,90 kr. og dísilolían kostar 136,40 kr. Hjá Atlantsolíu kostar bensínlítrinn 131,30 krónur og dísilolía 134,80 krónur.