„Ég sætti mig ekki við það að einhver segi mér hvað sé í boði og hvað ekki. Ég hlýt að stjórna mínum líkama sjálf," segir kona sem kaus að vera heima hjá sér á meðan hún framkvæmdi fóstureyðingu með hjálp fóstureyðingarpillu.
Fóstureyðingarpillan er lyf sem konum er gefið með tveggja daga millibili og brýtur niður slímhúð legsins. Á meðan hún er að skolast út er ætlast til þess að konur séu á spítala. Konan segist þó um síðir hafa fengið leyfi læknis til að eyða fóstrinu heima hjá sér.
Fóstureyðingarpillan hefur verið í boði á sjúkrahúsum hér á landi í hátt á annað ár. Jens A. Guðmundsson, yfirlæknir á kvenlækningadeild Landspítalans, segir helsta kost hennar þann, fram yfir hefðbundna útskröpunaraðgerð, að ekki þurfi að svæfa konuna. Í um 10% tilvika þurfi þó líka aðgerð, þar sem pillan dugi ekki til. Meira en helmingur fóstureyðinga er enn framkvæmdur með svæfingu.
„Ég lít á spítala sem mjög mikilvægar stofnanir ef eitthvað kemur upp á hjá mér eða ég þarf á læknisþjónustu að halda," segir viðmælandi 24 stunda en bætir við að ekkert hafi komið fram í lýsingum lækna og hjúkrunarfræðinga sem upplýsti hana um nauðsyn þess að vera inni á spítalanum á meðan fóstureyðingin færi fram, annað en að starfsfólki spítalans liði þá betur.
Hún segist hafa spurt hvort mikið væri um inngrip lækna á meðan á þessu stæði en fengið að vita að það væri einungis ef blæðingar væru óeðlilega miklar. „Svo var mér sagt að ef konum liði illa þætti þeim betra að vera á spítala. Sú er ekki raunin með mig," segir hún.