Kristmundur Ingþórsson, bóndi í Enniskoti í Víðidal, má kallast heppinn að hafa sloppið lifandi þegar hann rakst á byggðalínu með 30.000 volta rafmagnsstraumi þar sem hann var á ferð skammt frá heimili sínu rétt eftir hádegið á nýársdag.
Kristmundur sagði í samtali við Morgunblaðið að hann hefði verið að gefa hrossum sínum; flytja til þeirra heyrúllur aftan og framan á dráttarvél. Hann mætti hrossahópnum, á milli 30 og 40 hestum, á svokölluðum Refsteinsstaðavegi og ákvað að lyfta ámoksturstækjunum svo að hrossin gætu ekki gætt sér á heyinu fyrir framan vélina á meðan hann væri á ferð. Á sama augnabliki gekk yfir él.
„Skyggni var ekki mikið en þó nóg til þess að ég sá hrossin sem voru fyrir framan vélina nánast skjögra um og sum voru komin niður á hnén.“ Þegar hann leit aftur fyrir sig sá hann að tvö hross lágu hreyfingarlaus fyrir aftan vélina og reyndust þau dauð við nánari athugun.
Loft fór úr að minnsta kosti þremur dekkjum á dráttarvélinni og þá áttaði Kristmundur sig á því að heyrúllan á ámoksturstækjunum hafði lent í byggðalínunni og strekkst þó nokkuð á henni. „Ég setti vélina umsvifalaust í bakkgír en fékk þá mikið rafmagnshögg,“ sagði Kristmundur, en dráttarvélin hefði til allrar hamingju losnað frá rafmagnslínunni.