Ragnheiður Inga Þórarinsdóttir aðstoðarorkumálastjóri hefur formlega með bréfi óskað eftir því við Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra að hann rökstyðji ráðningu nýs orkumálastjóra. Össur skipaði 1. janúar sl. Guðna A. Jóhannesson, prófessor, í embætti orkumálastjóra til næstu fimm ára, en Guðni hefur sl. 13 ár gegnt stöðu forstöðumanns Byggingartæknideildar Konunglega verkfræðiháskólans í Stokkhólmi.
„Þessi ráðning kemur mér á óvart. Ég var sett orkumálastjóri í þrjá mánuði árið 2005 af Valgerði Sverrisdóttur og sett aðstoðarorkumálastjóri í nóvember 2005 þegar skipuritinu var breytt og varð þar með staðgengill orkumálastjóra,“ segir Ragnheiður og bendir á að hún hafi verið starfandi orkumálastjóri sl. þrjá mánuði meðan orkumálastjóri var í leyfi frá störfum.
„Auðvitað þegar maður finnur fyrir góðum stuðningi við sín störf, bæði innan stofnunarinnar og úti í orkugeiranum, hlýtur maður að verða hissa á þessari ráðningu,“ segir Ragnheiður. Bendir hún á að bæði hún og Guðni hafi doktorsgráðu í verkfræði, auk þess sem hún hafi MBA-gráðu frá Háskóla Íslands með áherslu á fjármál og rekstur. Auk þess virðist henni sem hún hafi meiri reynslu á sviði stjórnsýslu og orkumála en nýskipaður orkumálastjóri.
Eftir því sem blaðamaður kemst næst hefur ráðherra tvær vikur til þess að gera grein fyrir rökstuðningi sínum. Að sögn Ragnheiðar mun hún á grundvelli svara ráðherra ákveða hvort hún hyggist leita til Umboðsmanns Alþingis og Jafnréttisstofu.
Að sögn Einars Karls Haraldssonar, aðstoðarmanns iðnaðarráðherra, fór ráðningarstofan Capacent yfir umsóknir umsækjenda og valdi þá þrjá sem hún taldi hæfasta, m.t.t. menntunar og reynslu, í viðtöl. Segir hann að það hafi verið samdóma álit sérfræðinga ráðningarstofunnar, ráðuneytisstjóra iðnaðarráðherra og skrifstofustjóra orkumálasviðs að Guðni væri hæfasti umsækjandinn.