„Ungmenni eru of ung sett í að afgreiða á kassa, eru ein við afgreiðslu í verslunum á kvöldin og jafnvel að selja tóbak,“ segir Gylfi Már Guðjónsson, umdæmisstjóri Vinnueftirlits ríkisins. „Við höfum haldið fundi með starfsmannastjórum stórmarkaðanna, en það þarf greinilega meira til,“ segir hann.
Gylfi segir að Vinnueftirlitið hyggist ákveða á næstu dögum hvernig taka beri með afgerandi hætti á réttindamálum barna og unglinga á vinnumarkaði. „Við erum mjög ósátt við hvernig ástandið er nú,“ segir hann.
Þrettán ára stúlka var sl. þriðjudag að vinna á kassa í Bónus án vitundar foreldra sinna. „Ég fylgist vel með mínum börnum og þess vegna gat ég stoppað það sama daginn og Bónus lokkaði þrettán ára barn í lögbrot,“ segir Auður Proppé, móðir stúlkunnar, sem er mjög ósátt við atvikið.
Gylfi segir það ljóst að börn séu ekki fær um að meta ráðningarsamninga eða gæta réttar síns ef til kæmi og því mikilvægt að foreldrar séu hafðir með í ráðum þegar þau fari út á vinnumarkaðinn.