Löggan send á reiða farþega

Snorri Snorrason



„Hefðum við fengið betri upplýsingar hefðum við getað breytt miðanum, en
okkur var bara seinkað um hálftíma í senn. Á endanum varð það of seint,"
segir Eva Gísladóttir. Hún varð eins og fjöldi annarra farþega af ferð frá
París til Keflavíkur 30. desember síðastliðinn vegna þess að skortur var á
úthvíldum áhöfnum hjá Flugleiðum. Veður hamlaði flugumferð frá Keflavík
fyrir hádegi þann dag.

Bergþór Bjarnason, sem einnig flaug til Parísar þann dag, tekur undir með Evu og segir upplýsingagjöf til farþega hafa verið ónóga. Þá segir hann framkomu starfsmanna þjónustuborðs hafa verið til skammar, þeir hafi verið dónalegir og lögreglan verið kölluð til vegna farþega sem var heldur æstur en engin þörf hafi verið á því.

„Ísland er nú ekki svo mikið lögregluríki að fólk megi ekki segja skoðun sína," segir hann. Hann er ósáttur við kvörtunarþjónustu fyrirtækisins, hann hafi áður sent athugasemdir þangað en engin svör fengið.

„Það var kona með mér í þessu flugi sem varð fyrir því að flugvél lenti í loftgati í fyrra. Hún fékk matarvagn í höfuðið og hefur verið slæm í höfðinu síðan. Hún hefur margsent kvörtunarbréf en aldrei fengið svar."

Guðjón Arngrímsson,upplýsingastjóri Icelandair, segir það alþekkt að áhafnir flugvéla renni út á tíma þegar óveður hamlar flugi. Við því sé ekkert að gera. Hann segir fyrirtækið ekki bótaskylt en leitast sé við að koma fólki á áfangastað eins fljótt og unnt er. Hann segir að í aðstæðum sem þessum séu upplýsingar oft af skornum skammti. Ævinlega sé reynt að svara kvörtunum eins vel og kostur er en fyrirtækið sé stórt og fjöldi farþega gífurlegur.

„Þar af leiðandi koma reglulega kvartanir, sumar réttmætar en oft er fólk að reyna að verða sér úti um eitthvað sem það á ekki rétt á."


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert