Sektaður fyrir veiðar innan lokaðs hólfs

Héraðsdómur Vestfjarða hefur dæmt skipstjóra til að greiða 250 þúsund króna sekt fyrir að veiða innan skyndilokunarsvæðis norður af Deild í júní. Kröfu ákæruvaldsins um að veiðarfæri og afli yrðu gerð upptæk var hinsvegar hafnað.

Skipstjórinn var ákærður fyrir veiðar í hólfinu í tvo daga í júní. Engin vitni voru að veiðunum fyrri daginn en ákæruvaldið notaði til sönnunar siglingaferil skipsins, fenginn frá Vaktstöð siglinga. Dómurinn taldi það ekki vera nægjanleg gögn og sagði, að ekkert haldbært yrði ráðið af því korti annað en siglingaleið bátsins.

Flugvél Landhelgisgæslunnar stóð bátinn hins vegar að verki við veiðar innan lokaðs hólfs síðari daginn. Skipstjórinn sagðist fyrir dómi ekki hafa vitað að hólfið væri lokað. Það væri venja hjá honum að fylgjast með tilkynningum frá Hafrannsóknastofnun um skyndilokanir í lok 10 frétta Útvarpsins. Lestur venjubundinnar heildartilkynningar um skyndilokanir Hafrannsóknastofnunar mun hins vegar hafa fallið niður morguninn áður vegna veikinda þular.

Dómurinn taldi brot skipstjórans hvorki ítrekað né framið af ásetningi og ekki heldur stórfellt og gerði honum að greiða 250 þúsund krónur í sekt sem rennur í Landhelgissjóð. Dómurinn hafnaði kröfum ákæruvaldsins um upptöku veiðarfæra og andvirðis afla þar sem hann taldi kröfuna ekki uppfulla skilyrði laga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert