Lögreglan hefur nú í rannsókn stærsta stuld á bókum og ritum sem framinn hefur verið á Íslandi. Tugum bóka var stolið úr dánarbúi Böðvars Kvarans á seinni hluta ársins 2006 og fyrri hluta ársins 2007. Flestar bókanna eru afar verðmætar fornbækur, frumútgáfur og illfáanlegar annars staðar.
Talið er ljóst að verðmæti bókanna hlaupi á tugum milljóna og jafnvel allt upp í hundrað milljónir. Lögreglan birti í gær lista yfir þær bækur sem enn er saknað úr safninu.
Hjörleifur Kvaran, sonur Böðvars, segir að synir Böðvars hafi kært málið til lögreglu síðasta haust. Það sé nú í rannsókn og að því er hann best viti sé rannsóknin á lokastigi.
„Grunsemdir um þennan þjófnað komu upp snemma síðasta árs og við fengum þær síðan staðfestar. Þá var ákveðið að kæra málið til lögreglu til að reyna að endurheimta bækurnar en verðmæti þeirra hleypur á tugum milljóna." Hjörleifur segir að hann viti að bækur úr safninu hafi lent í höndum eigenda Fornbókabúðar Braga Kristjónssonar en ásamt Braga er Ari Gísli sonur hans eigandi búðarinnar.
„Það er ljóst að eigendur verslunarinnar voru vitorðsmenn í málinu. Þetta veit ég vegna þess að 17. mars á síðasta ári fór ég og ræddi við Braga Kristjónsson og hann sagði mér að þeir feðgar hefðu fengið bækur úr safninu í hendurnar. Eftir það samtal fékk ég í hendurnar bækur sem þeir sögðust hafa fengið úr safninu en það voru sárafá eintök, ekki nema brotabrot af því sem saknað er.
Stór hluti af því sem mér var skilað var hins vegar ekki úr safni föður míns heldur eitthvað allt annað. Ég veit líka fyrir víst að þeir höfðu undir höndum allar þær bækur sem stolið var. Um það liggur fyrir játning frá þeim sem stal bókunum. Þetta hef ég eftir lögreglunni." Hjörleifur leggur áherslu á að listarnir yfir bækurnar sem vantar séu birtir með leyfi kærenda.
„Það gerum við til að reyna að höfða til samvisku þeirra sem hafa þessar bækur undir höndum. Ég geri ekki ráð fyrir því að þeir valinkunnu sæmdarmenn sem keypt hafa þessar bækur hafi mikla ánægju af að horfa á þýfi uppi í skáp hjá sér."
Ari Gísli Bragason, annar eigandi Fornbókabúðarinnar, segir að þeir feðgar hafi fengið bækur í hendur úr safni Böðvars. „Við fengum nokkrar bækur, ég man nú ekki hvað þær voru margar, en við skiluðum þeim öllum þegar haft var samband við okkur. Við fengum ekkert meira af þessum bókum en þetta."
Ari Gísli segir að hann hafi gefið skýrslu um málið hjá lögreglunni. Aðspurður hvort þeir feðgar hafi verið ákærðir eða sæti rannsókn segist Ari Gísli ekki vita til þess.
„Ég veit ekki til þess að við liggjum undir grun. Ég veit ekki neitt um afganginn af þessum bókum en við höfum ekki fengið þær. Við ætluðum að taka þessar bækur í sölu en þegar haft var samband við okkur og við fréttum hvernig í málinu lá þá skiluðum við þeim."
Þegar ásakanir Hjörleifs um að þeir feðgar hafi fengið allar bækurnar í hendur eru bornar undir Ara Gísla svarar hann því að svo sé ekki. „Það er ekki þannig."
Meðfylgjandi eru listar yfir bækurnar sem stolið var. Lögreglan biður þá sem kunna að hafa upplýsingar um bækurnar og kortin að hafa samband í síma 444-1000.