Vill 100.000 dali fyrir yahoo.is

Garðar Arnarsson, menntaskólanemi og kerfisstjóri í Reykjavík, bauð í gær upp lénið yahoo.is á uppboðsvefnum ebay.com og vill fá 100.000 dali, eða um 6,3 milljónir króna fyrir. Níu dagar eru enn eftir af uppboðinu en Garðar segir að þegar hafi borist tilboð erlendis frá upp á um helming umbeðinnar upphæðar.

Garðar skráði lénið síðastliðið sumar, það hafði verið skráð áður en var laust þegar Garðar frétti af því að Yahoo!, önnur stærsta netgátt og leitarvél heims væri að íhuga að opna netþjónabú hér á landi.

Bæði hafa borist tilboð í lénið frá innlendum og erlendum aðilum, en Garðar segir erlendu tilboðin mun hærri. Á uppboðssíðunni segir að virði lénsins liggi bæði í tengslum við fyrirhugað netþjónabú, en einnig vegna hinnar íslensku endingar sem bjóði upp á ýmsa möguleika, svo sem yahoo.is/good, eða yahoo.is/bad.

Fyrirtækið bandaríska hefur ekki haft samband en Garðar segist meðvitaður um að mögulegt sé að Yahoo! reyni að krefjast yfirráðaréttar á léninu á grundvelli löggjafar um vörumerkjavernd.

„En orðið er skráð í enskar orðabækur sem upphrópun svo ég hef ekki of miklar áhyggjur af því."

Ekkert tilboðanna í lénið er komið á það stig að verið sé að semja um kaup, enda eru enn níu dagar eftir af uppboðinu, Garðar segist ætla að bíða átekta og sjá hvort betri tilboð berist, eBay er enda þekkt fyrir það að kapp færist fyrst í leikinn þegar líður að lokum uppboðs.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka