Bókin Brekkukotsannáll, eftir Halldór Laxness, hefur verið gefin út að nýju í Bandaríkjunum. Rithöfundurinn Jane Smiley skrifar formála að bókinni eins og fleiri bókum Halldórs, sem komið hafa út að nýju vestanhafs á undanförnum árum.
Nýja útgáfan kemur út í Bandaríkjunum í febrúar. Richard Rayner fjallar um bókina, sem nefnist The Fish Can Sing á ensku, í helgarblaði Los Angeles Times og segir að í henni hafi höfundurinn ekki reynt að vera jafn víðfeðmur og t.d. í Sjálfsstæðu fólki. Þetta sé persónulegri bók þar sem Halldór virðist íhuga rætur sínar og truflandi eðli frægðar sinnar. En eins og allar bækur Halldórs búi þessi yfir dáleiðandi krafti, sem varla sé greinanlegur í fyrstu en verði síðan yfirþyrmandi.
Rayner segir, að sambland hláturs og gráts í verkum Halldórs falli ekki að allra smekk en hann verði ógleymanlegur þeim lesendum, sem kynnast heimi hans.